Fréttir

Skráning er hafin á Unglingalandsmót UMFÍ

17.07.2017

Skráning er í fullum gangi á Unglingalandsmót UMFÍ. Mótið verður haldið á Egilsstöðum dagana 3.- 6. ágúst. Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) heldur mótið með UMFÍ.

 

Mótið er fyrir 11-18 ára og þarf aðeins að greiða eitt þátttökugjald. Gjaldið er 7.000 krónur og er fyrir það hægt að skrá sig til keppni í fleiri en einni grein. Þau börn geta komið og keppt á mótinu sem verða 11 ára á árinu. Þau þurfa hvorki að vera skráð í ungmennafélag né íþróttafélag og geta komið hvort þau vilja með öðrum í hópi eða sem einstaklingar og mynda þá hóp með öðrum stökum börnum og ungmennum.

 

Þetta er 20. Unglingalandsmót UMFÍ. Það hefst 3. ágúst næstkomandi með keppni í golfi og verður því slitið sunnudaginn 6. ágúst.

 

Gert er ráð fyrir miklum fjölda fólks á Egilsstöðum yfir mótshelgina eða á milli 1.000-2.000 keppendum og aðstandendum þeirra, jafnvel allt upp undir 10.000 manns.

 

 

Á Unglingalandsmótinu verður keppt í 23 geysispennandi greinum. Þetta eru greinarnar: Boccia - Bogfimi - Fimleikalíf - Fjallahjólreiðar - Frisbígolf - Frjálsar íþróttir - Glíma - Golf - Götuhjólreiðar - Hestaíþróttir - Knattspyrna - Kökuskreytingar - Körfuknattleikur - Motocross - Ólympískar lyftingar - Rathlaup - Skák - Stafsetning - Strandblak - Sund - UÍA þrekmót - Upplestur og Íþróttir fatlaðra. 

 

 

Úlfur Úlfur og fleiri skemmta

Kvöldvökur verða haldnar mótsdagana á Egilsstöðum og verða þar engin smástirni á ferðinni. Á meðal þeirra tónlistarmanna sem fram koma eru Úlfur Úlfur, Hildur, Aron Hannes, Emmsjé Gauti, hljómsveitirnar Amabadama og Mur Mur, Hafnfirðingurinn Jón Jónsson og fleiri.

 

Danski sýningarhópurinn sem sló í gegn í Danmark Got Talent mæta á svæðið og sýnir listir sínar. Hópurinn kemur hingað til lands í boði fyrirtækisins Motus.

 

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð. 

 

Skráðu þig hér

 

Hér eru ítarlegar upplýsingar um allt sem þú þarft að vita um Unglingalandsmótið.

Lesa meira

Sumarfrí á skrifstofu UMSB

17.07.2017

Skrifstofan okkar verður lokuð vikuna 17.- 21 júlí og 31.júlí - 4.ágúst vegna sumarleyfa. 

Lesa meira

Skráningar og dagskrá sumarfjörs 2017

11.04.2017

Nú er komin dagskrá fyrir sumarfjörið 2017 og búið að opna fyrir skráningar. Sjáðu dagskránna með því að smella hérna.

Lesa meira

Páskafrí á skrifstofunni

10.04.2017

Skrifstofan verður lokuð frá 10.apríl til 17.apríl. Við opnum aftur á þriðjudaginn 18.apríl. 

Bestu kveðjur og gleðilega páska.

Lesa meira

Umsóknir um starfsstyrki

06.04.2017

UMSB auglýsir eftir umsóknum um starfsstyrki Borgarbyggðar, og skulu umsóknir hafa borist á skrifstofu UMSB eða í netfangið umsb@umsb.is fyrir 1.maí 2017.

Um starfsstyrki geta sótt félög og deildir þeirra sem sinna íþrótta- eða félagsstarfi innan UMSB eða hafa með höndum aðra sambærilega starfsemi. Megináherslan er á að styrkja starf með börnum og unglingum yngri en 16 ára og að starfsemin sé á forsendum uppeldislegra gilda og forvarna í víðum skilningi. Starfsemin þarf að fara fram undir leiðsögn hæfra starfsmanna, þannig að fagmennska sé viðhöfð við kennslu og þjálfun barna og unglinga. Skilyrði er að félagið hafi starfað í a.m.k. 2 ár og staðið skil á lögformlegum skyldum sínum t.d. haldið aðalfund, lagt fram ársskýrslu, ársreikninga o.s.frv. 

Nánari upplýsingar um starfsstyrki Borgarbyggðar og upplýsingar um fylgiskjöl og gögn má finna hér: http://www.umsb.is/skrar/file/samstarfssamningar-umsb-og-borgarbyggdar/vidaukiastarfsstyrkirloka.pdf 

Einnig er velkomið að hafa samband við Pálma í síma 869-7092, fyrir frekari upplýsingar.

Lesa meira

Sambandsþing UMSB

15.03.2017

Laugardaginn 11.mars sl. var 95.sambandsþing UMSB, og var það haldið í Hjálmakletti í Borgarnesi að þessu sinni. Dagskrá þingsins var hefðbundin samkvæmt lögum sambandsins og fengum við góða gesti í tilefni þingsins, en Gunnlaugur Júlíusson sveitarstjóri Borgarbyggðar færði kveðjur frá ÍSÍ en hann situr í stjórn ÍSÍ og Guðmundur Sigurbergsson færði kveðju UMFÍ ásamt því að hann veitti Írisi Grönfeldt starfsmerki UMFÍ fyrir störf hennar í þágu ungmenna og íþróttastarfs í gegnum árin. Sólrún Halla sambandsstjóri UMSB færði Rósu Marinósdóttur viðurkenningu sambandsins, en hún vann flestar vinnustundir allra sjálfboðaliða í tenglsum við undirbúning og framkvæmd Unglingalandsmótsins sem haldið var í Borgarnesi um verslunarmannahelgina 2016. Það var mjög viðeigandi þegar heiðra átti Rósu fyrir sjálfboðaliðastörf að hún var fjarverandi við sjálfboðaliðastörf í þágu kvenfélags sem var að sjá um kaffiveitingar fyrir sjálfboðaliða í Björgunarsveitinni Ok svo dóttir hennar tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd, en auðvitað fór Sólrún Halla sambandsstjóri síðar um daginn og óskaði Rósu til hamingju og fékk mynd  

Íris Grönfeldt sem situr í stjórn afreksmannasjóðs UMSB tilkynnti um styrkveitingar úr sjóðnum fyrir afrek ársins 2016. Það voru 6 íþróttamenn sem hlutu styrk úr sjóðnum að þessu sinni en það eru; Bjarki Pétursson golfari, Birgitta Dröfn Björnsdóttir og Daði Freyr Guðjónsson dansarar, Bjarni Guðmann Jónsson og Sigurður Aron Þorsteinsson körfuboltamenn og Ingibjörg Rósa Jónsdóttir badmintonkona.

Þingstörf gengu vel og Guðmundur Sigurðsson og Kristján Gíslason þingforsetar stýrðu þinghaldinu af miklum myndarskap. Fram kom á þinginu að fjárhagslegur rekstur UMSB gekk vel á árinu 2016 og skilaði hagnaði, en það má að mestu leyti rekja til hækkunar á lottótekjum frá fyrra ári og afgangi frá framkvæmd Unglingalandsmótsins. Mikil samstaða var um þær tillögur sem afgreiddar voru á þinginu og fundarmenn almennt sáttir með gott þing. Í lok þingsins var kosið um laus embætti í stjórn og var Sólrún Halla kjörin sambandsstjóri til eins árs, Kristín Gunnarsdóttir var kjörin ritari til tveggja ára og er hún að koma aftur í stjórn UMSB eftir stutta fjarveru, Þórður Sigurðsson var kjörinn vararitari til tveggja ára, Anna Dís Þórarinsdóttir var kjörin meðstjórnandi til tveggja ára og Þórhildur María Kristinsdóttir var kjörin varameðstjórnandi til tveggja ára. Skoðunarmenn reikninga voru kjörnir til eins árs og það voru þeir Eiríkur Ólafsson og Guðbrandur Brynjúlfsson og Einar Ole Pedersen til vara. Nokkrar myndir frá þinginu eru í myndaalbúminu.

 

Lesa meira

Umsóknir í afreksmannasjóð UMSB

09.02.2017

Við minnum á að nú er tekið á móti umsóknum í afreksmannasjóð UMSB, en umsóknir í sjóðinn þurfa að berast fyrir 1.mars nk. og má skila þeim með tölvupósti á umsb@umsb.is eða á Skallagrímsgötu 7a, 310 Borgarnesi.

Reglugerð sjóðsins má sjá hér: http://www.umsb.is/is/page/reglugerdir 

Allar nánari upplýsingar veitir Pálmi í síma 869-7092. 

Lesa meira

Íþróttamaður Borgarfjarðar 2016 er Sigrún Sjöfn Ámundadóttir

14.01.2017

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir körfuknattleikskona í Skallagrím er íþróttamaður ársins 2016. Sigrún er vel að þessum titli komin, en hún hefur staðið sig frábærlega með landsliði íslands í körfuknattleik ásamt því að hún er lykilleikmaður í úrvalsdeildarliði Skallagríms.

Lesa meira

Frístundastyrkur

03.01.2017

Frístundastyrkur fyrir börn og ungmenni í Borgarbyggð

Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti á fundi sínum 8. desember sl. reglur um frístundastyrk fyrir börn og ungmenni  í Borgarbyggð. Með tilkomu styrksins eru öll börn og ungmenni á aldrinum 6-18 ára styrkt með framlagi að upphæð kr. 20.000 á ári eða kr. 10.000 á önn . Markmið framlagsins er að hvetja börn og ungmenni til að taka þátt í frístundastarfi í Borgarbyggð.

Ástæða þess að sveitarfélög um land allt hafa tekið upp slíka styrki eru niðurstöður langtíma rannsókna á líðan íslenskra barna og ungmenna sem sýna að þátttaka í slíku starfi, sem nær yfir að minnsta kosti 10 vikur, hefur marktæk áhrif á bætta líðan. Íþróttastarf og skátastarf vegur þar langþyngst á metum.

Hægt er að nýta frístundastyrk í:

  • skipulagt frístundastarf í Borgarbyggð sem stundað er undir leiðsögn þjálfara eða leiðbeinanda samfellt í amk. 10 vikur. Þetta á t.d. við um allt íþróttastarf sem stundað er á vegum viðurkenndra íþróttafélaga, dans í dansskólum, skátastarf og annað reglubundið frístundastarf,
  • íþrótta- og tómstundanámskeið barna í 1. og 2. bekk sem skráð eru í íþrótta- og tómstunaskólann,
  • árskort/sundkort fyrir ungmenni eldri en 16 ára,
  • nám í tónlistarskóla sem er samfellt í 10 vikur.

Úthlutun frístundastyrksins hefst í byrjun janúar 2017 og fer hún fram á íbúagátt Borgarbyggðar og í gegnum skráningarkerfið Nóra vegna starfs hjá félögum UMSB.  Bæði er hægt að nýta styrkinn beint hjá félögum innan Borgarbyggðar sem og í öðrum sveitarfélögum.  Þegar frístundastyrkurinn er nýttur í gegnum skráningarkerfi Nóra þarf að haka í kassann „Nota frístundastyrk Borgarbyggðar“ og þá lækkar upphæð æfingagjalda um þá upphæð sem nemur inneign frístundastyrks fyrir barnið.

Þeir sem nýta frístundastyrkinn til niðurgreiðslu á tónlistarnámi velja að nýta styrkinn í skráningarformi Tónlistarskólans.

Í öllum tilfellum byrjarðu á að skrá þig inn á íbúagátt Borgarbyggðar. Ef þú átt ekki lykilorð skráirðu kennitöluna þína í reitinn Nýskráning og færð lykilorð sent í heimabankann þinn.

Greitt er tvisvar á ári, kr. 10.000 eru greiddar í janúar fyrir vorönn og kr. 10.000 í ágúst fyrir haustönn.

Mikilvægt er að nýta styrkinn við skráningu í upphafi annar. Styrkurinn færist ekki milli ára.

Lesa meira

Jólafrí

26.12.2016

Skrifstofan okkar verður lokuð á milli jóla og nýárs og opnar aftur eftir jólafrí mánudaginn 2.janúar.

Lesa meira

Íþróttamaður Borgarfjarðar 2016

08.12.2016

Stjórn UMSB óskar eftir ábendingum frá almenningi um íþróttafólk sem þykir hafa náð góðum árangri eða skarað fram úr í sinni íþrótt á árinu 2016. Samkvæmt reglum um kjör íþróttamanns Borgarfjarðar þá er stjórn UMSB heimilt að tilnefna allt að þrjá einstaklinga eða pör að eigin frumkvæði eða eftir ábendingum frá almenningi. Þessar tilnefningar eru til viðbótar við þær sem koma frá aðildarfélögum og deildum UMSB. Ábendingarnar skulu berast í tölvupósti á netfangið umsb@umsb.is fyrir  2. janúar 2017. Kjörið fer fram strax í framhaldinu og er verðlaunaafhending áætluð 14. janúar 2017.

Allar nánari upplýsingar er hægt að fá í síma 869-7092. 

Lesa meira

Samæfing SamVest

15.11.2016

Samæfing á vegum SamVest  

 

Eins og fram hefur komið í fréttum á FB-síðu SamVest, þá stefnum við að samæfingu haustsins í Kaplakrika – föstudaginn 18. nóvember 2016 kl. 17.00 – 20.00.

 

Æfingin er fyrir 10 ára og eldri á starfssvæði SamVest.

Mætið með æfingaföt og innanhússíþróttaskó, gaddaskó þau sem eiga.


Þjálfarar FH sjá um þjálfunina, mögulega þjálfarar frá okkar félögum líka.  
Nesti á æfingunni í boði SamVest.

Eftir æfingu förum við saman og fáum okkur kvöldsnarl.

Æfingin er þátttakendum að kostnaðarlausu, en hver og einn borgar fyrir sig í kvöldmatinn.

 

Hér má skrá þátttöku á sérstakt eyðublað – smellið hér. Endilega skráið sem allra fyrst – mætum sem flest og gerum þetta að góðri æfingu!!

 

Athugið að laugardaginn 19. nóvember fara fram Silfurleikar ÍR – sjá upplýsingar hér.
Á Silfurleikunum er í boði fjölþraut fyrir 9 ára og yngri, fjórþraut (60 m, 600 m, langstökk og kúluvarp) fyrir 10-11 ára og svo 6-7 keppnisgreinar að eigin vali fyrir 12 ára og uppí 17 ára.
Hvert félag sér um skráningu sinna iðkenda, en hér er hlekkur á mótið í mótaforriti FRÍ. 

 

Með kveðju,
SamVest, framkvæmdaráð

 

 

Lesa meira

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2012